VEX fjárfestir í Öryggismiðstöðinni

VEX fjárfestir í Öryggismiðstöðinni

Framtakssjóðurinn VEX I hefur náð samkomulagi um kaup á um 45% hlutafjár í Öryggismiðstöðinni og eru kaupin nú til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu. Seljendur eru Hlér ehf., félag í eigu Guðmundar Ásgeirssonar ofl., Nóra Capital ehf., félag í eigu Róberts Róbertssonar, Daði Þór Veigarsson og Seldalur ehf., félag í eigu nokkurra starfsmanna auk þess sem Laugarfell ehf., félag í eigu Ragnars Þórs Jónssonar, forstjóra og Auðar Lilju Davíðsdóttur, framkvæmdastjóra sölu og ráðgjafar selur að hluta. Hluthafar Öryggismiðstöðvarinnar eftir viðskiptin verða, ásamt VEX I, Laugarfell ehf., nokkrir lykilstarfsmenn félagsins og Feier ehf., félag í eigu Hjörleifs Jakobssonar og Hjördísar Ásberg, en Feier eykur lítillega við hlut sinn í viðskiptunum.

Öryggismiðstöðin var stofnuð árið 1995 og sérhæfir sig í fjölbreyttum lausnum og þjónustu í öryggis- og velferðartækni fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Um 550 stöðugildi voru hjá félaginu á síðasta ári. Viðskiptavinir félagsins eru mörg af stærstu fyrirtækjum og stofnunum landsins og nam velta félagsins rúmlega sjö milljörðum króna á síðasta ári.

VEX I er tíu milljarða framtakssjóður í stýringu VEX ehf. Sjóðurinn fjárfestir í óskráðum fyrirtækjum, sem eru að sækja nýtt hlutafé til vaxtar, auk stöndugra félaga þar sem tækifæri eru til umbóta og aukinnar virðissköpunar. VEX I hefur einnig fjárfest í fyrirtækjunum AGR, Annata, Icelandic Provisions og OK.

Benedikt Ólafsson, eigandi hjá VEX ehf.:

„Öryggismiðstöðin er öflugt fyrirtæki sem vaxið hefur jafnt og þétt yfir langt tímabil. Félagið býr yfir reynslumiklum hópi starfsfólks sem hefur tekist að fjölga tekjustoðum á sviðum þar sem við sjáum tækifæri til að sækja enn frekar fram. Við hlökkum til að hefja þá vinnu með stjórnendum, starfsmönnum og öðrum hluthöfum félagsins.”

Ragnar Þór Jónsson, forstjóri Öryggismiðstöðvarinnar:

„Við í Öryggismiðstöðinni tökum fagnandi á móti VEX og höfum trú á því að tilkoma þeirra hafi jákvæð áhrif á okkar metnaðarfullu markmið. Fyrirtækið er í öflugum vexti og stöðugri þróun. Tækifærin eru fjölbreytt og við erum á spennandi vegferð með frábærum hópi starfsmanna þar sem gildi fyrirtækisins; forysta, umhyggja og traust leiða okkur áfram á því ferðalagi sem við erum á. “