VEX fjárfestir í Annata

VEX fjárfestir í Annata

Framtakssjóðurinn VEX I og meðfjárfestar hafa gert bindandi samkomulag um kaup á allt að helmingshlut í hugbúnaðarfyrirtækinu Annata. Annata er í dag að fullu í eigu starfsmanna sem munu áfram leiða frekari uppbyggingu félagsins.

 

Annata er alþjóðlegt hugbúnaðarfyrirtæki með höfuðstöðvar á Íslandi. Fyrirtækið var stofnað fyrir 20 árum síðan og er enn þann dag í dag rekið af stofnendum þess. Hjá félaginu starfa um 200 starfsmenn á starfsstöðvum í 13 löndum. Starfsemi Annata felst í þróun og innleiðingu viðskiptahugbúnaðar í áskrift fyrir fyrirtæki í bíla- og tækjaiðnaði sem byggður er ofan á Azure skýjalausnir Microsoft. Annata hefur gert langtíma áskriftarsamninga við marga af stærstu framleiðendum og dreifingaraðilum innan þessara tveggja atvinnugreina.

 

Undanfarin ár hefur Annata fjárfest verulega í þróun á eigin skýjalausnum og hefur það lagt grunninn að miklum vexti og uppbyggingu félagsins á erlendum mörkuðum, en yfir 95% af tekjum samstæðunnar koma erlendis frá. Áskriftatekjur af eigin hugbúnaðarlausnum félagsins jukust um 62% á milli áranna 2020 og 2021 á sama tíma og tekjuvöxtur félagsins var um 45% en félagið velti rúmlega fimm milljörðum króna á síðasta ári. EBITDA félagsins er áætluð um 1,6 milljarðar árið 2021.

 

„Síðustu 5 ár hafa verið ár umbreytinga hjá félaginu þar sem við lukum grundvallar breytingum á viðskipta módeli fyrirtækisins með miklum vexti erlendis, kaupum og stofnun erlendra félaga samhliða aukinni áherslu á áskrifarsölu eigin hugbúnaðar inn í bifreiða- og tækja iðnaðinn. Þetta hefur kostað mikla fjármuni sem við höfum að öllu leyti sótt úr rekstri félagsins. Nú höfum við fengið til liðs við okkur mjög öflugan fjárfesti í VEX og við hlökkum til enn frekari vaxtar og uppbyggingar á félaginu næstu ár“ segir Jóhann Ólafur Jónsson, forstjóri Annata.

 

„Stofnendum og starfsfólki hefur tekist að byggja upp félag sem er leiðandi á sínu sviði á heimsvísu. Lausnir Annata eru hryggjastykki í rekstri viðskiptavina félagsins og mikilvægur þáttur í tæknilegri framþróun þeirra. Næstu skref félagsins í átt til frekari vaxtar eru mjög spennandi og erum við virkilega ánægð með að fá að taka þátt í þeirri vegferð með starfsmönnum félagsins.“ segir Benedikt Ólafsson, eigandi hjá VEX.

 

Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka var ráðgjafi kaupenda í viðskiptunum og erlendi fjárfestingabankinn Stifel var ráðgjafi seljenda.

 

Um VEX I

VEX I er tíu milljarða framtakssjóður í stýringu VEX ehf. Sjóðurinn fjárfestir í óskráðum fyrirtækjum, sem eru að sækja nýtt hlutafé til vaxtar, auk stöndugra félaga þar sem tækifæri eru til umbóta og aukinnar virðissköpunar.