OK kaupir netöryggislausnir Cyren og stofnar Varist

OK kaupir netöryggislausnir Cyren og stofnar Varist

OK hefur fest kaup á vírusvarnarhugbúnaði alþjóðlega netöryggisfyrirtækisins Cyren Ltd. (NASDAQ: CYRN) en félagið sótti nýverið um gjaldþrotaskipti í Ísrael. Kaupin eru gerð í gegnum nýtt félag, Varist ehf., sem verður í sameiginlegri eigu OK og fyrrum starfsmanna Cyren á Íslandi sem unnið hafa saman að viðskiptunum síðan öllum starfsmönnum Cyren á Íslandi var sagt upp störfum þann 1. febrúar s.l. Hallgrímur Th. Björnsson verður framkvæmdastjóri nýs félags sem mun sérhæfa sig í netöryggislausnum og tengdri þjónustu.

Hugbúnaðarlausnirnar sem um ræðir eru nýttar af mörgum af helstu tæknifyrirtækjum heims, þ.m.t. Microsoft, Google og Zscaler. Lausnirnar eiga sér djúpar rætur á Íslandi, en yfir 30 ár eru síðan þær litu fyrst dagsins ljós, þá undir nafninu Lykla-Pétur. Commtouch, forveri Cyren, keypti svo starfsemina á Íslandi árið 2012 en rekstur og þróun lausnanna var áfram hér á landi. Samtals komu 40 starfsmenn að þeim rekstri, mestmegnis hérlendis og á Filippseyjum.

Hallgrímur Th. Björnsson, framkvæmdastjóri Varist

„Við erum að taka veiruvörnina aftur til okkar, aftur til Íslands. Starfsfólkið okkar er óaðskiljanlegur hluti af veiruvarnartækninni, með gríðarlega þekkingu og reynslu á spilliforritum og tölvuöryggi sem alls telur yfir 250 ár. Þessi tækni er einstök og þarna eru mikil tækifæri til að vaxa og þróa nýjar vörur, til dæmis veirugreiningarlausnin Hybrid Analyzer sem kom út í október síðastliðnum. Við hlökkum til að halda áfram okkar vegferð og tryggja tækninni okkar farsæla framtíð.“

Gunnar Zoega, forstjóri OK

„Öryggismál í upplýsingatækni hafa aldrei verið eins mikilvæg og í dag. Við erum augljóslega mjög spennt fyrir þessari viðbót í okkar vöruframboð. Stefna OK er að veita bestu þjónustu og búnað sem völ er á og þetta stóra skref inn í heim öryggislausna styður við þá stefnu.„