Magnus Norddahl nýr forstjóri Annata

Magnus Norddahl nýr forstjóri Annata

Magnús Norðdahl hefur verið ráðinn forstjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Annata og mun hefja störf 1.janúar næstkomandi. Magnús tekur við af Jóhanni Ólafi Jónssyni, einum af stofnendum Annata, en Jóhann hefur verið forstjóri Annata frá stofnun félagsins árið 2001.  Samhliða ráðningu Magnúsar mun Jóhann taka við stjórnarformennsku félagsins af Magnúsi sem gengt hefur þeirri stöðu frá því að VEX I og meðfjárfestar keyptu helmingshlut í Annata í byrjun árs 2022.

 

Magnús starfaði áður sem forstjóri hugbúnaðarfyrirtækisins LS Retail til 11 ára þar sem hann tók þátt í að byggja upp félagið á alþjóðavísu. Magnús hefur því umfangsmikla þekkingu á viðskiptahugbúnaði byggðum á Azure skyjálausnum Microsoft sem og að vinna náið með Microsoft sem alþjóðlegur samstarfsaðili. Magnús hefur 30 ára stjórnunarreynslu  innan hugbúnaðarþróunar, upplýsingatækni og lyfjaiðnaðarins á heimsvísu, meðal annars hjá EJS, DAC og Tech Data. Þá hefur Magnús jafnframt setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja á borð við Men & Mice, Artasan og Advania í Svíþjóð.

 

Magnús Norðdahl:

“Starfsfólk Annata hefur náð aðdáunarverðum árarangri í byggja upp félag sem er leiðandi á heimsvísu í hugbúnaðargerð fyrir framleiðendur, dreifingaraðilar og seljendur bifreiða og vinnuvéla. Vöxtur á undanförnum árum hefur verið um og yfir 50% og félagið hefur byggt upp árangursríkt samstarf við mörg af helstu vörumerkjum í heimi, s.s. Toyota, Volvo, Volkswagen, Citroen, Claas, Scanina, Hitachi, Yamaha, Komatsu, Izuzu o.fl.

Það er því mikill heiður að fá að leiða Annata áfram á þeirri vegferð vaxtar sem fram undan er. Fráfarandi forstjóri Annata, Jóhann Jónsson, sem leitt hefur fyrirtækið frá upphafi mun hafa stólaskipti við mig sem stjórnarformaður Annata, og munum við því halda áfram að vinna þétt og náið saman í þessu skemmtilega verkefni.“

 

Jóhann Jónsson:

“Það er mikill fengur fyrir félagið að fá Magnús í stól forstjóra. Við höfum fylgst með honum leiða og byggja upp einn mikilvægasta samstafsaðila Microsoft á sviði iðngreinalausna og átt farsælt samstarf í gegnum tíðina, ekki síst eftir að hann settist í stól stjórnarformanns félagsins. Ég gæti því ekki verið ánægðari með arftaka minn.

Magnús kemur inn í félagið á mikilvægum tímapunti og mun ásamt ört vaxandi hópi stjórnenda og starfsfólks víða um heim leiða félagið áfram til frekari vaxtar. Framundan eru spennandi tímar, Annata hefur náð góðri fótfestu meðal margra af stærstu og mikilvægustu vörumerkjum heims í bíl- og vinnuvélagreininni og mun halda áfram að spila stórt hlutverk í stafrænni umbyltingu í þeim iðnaði.

Ég er afar spenntur fyrir framtíðinni og mínu nýja hlutverki og hlakka til að vinna áfram með Magnúsi og fagfólkinu hjá VEX I að framgangi Annata.“